Lóðahreinsun og númerslausar bifreiðar

Um ábyrgð eiganda eða umráðamanns húss eða mannvirkis
Í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti segir í 18. gr, 1. mgr.: ,,Eigandi eða umráðamaður húss eða mannvirkis skal halda eigninni hreinni og snyrtilegri ásamt tilheyrandi lóð og girðingum, þannig að ekki valdi öðrum ónæði“, 20. gr. 1. mgr.: ,,Bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti“ og 21 gr. “Heilbrigisnefnd er heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum”.

 

Heimild fyrir ákvörðun um lóðahreinsun og/eða að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar eða bílflök

17. gr. (áður 16. gr.) reglugerðar nr. 737/2003, með síðari breytingum, um meðferð úrgangs segir:

,,Umráðamönnum lóða er skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum.
Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutast til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni.
Nefndin getur krafist lagfæringa og viðgerða á lóðum, girðingum og mannvirkjum, ef nauðsynlegt þykir til þrifnaðar eða ef ástand þeirra er til lýta fyrir umhverfið.
Nefndinni er heimilt að fyrirskipa hreinsun lóða og lendna og ef sérstök ástæða er til niðurrif húsa og girðinga í niðurníðslu.
Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun, t.d. með álímingarmiða með aðvörunarorðum.
Heilbrigðisnefnd getur látið hreinsa einkalóðir á kostnað eigenda telji nefndin þess þörf vegna mengunar og óhollustu“.

Lögveð í fasteign

Bent er á að sbr. 61. gr. laga nr. 7/1998, með síðari breytingum, er kostnaður sem til fellur, tryggður með lögveðsrétti í húsi, lóð eða tæki, sbr. 2. mgr. 61. gr. laganna.

Þetta þýðir að við lóðahreinsanir fær Heilbrigðiseftirlitið  lögveð í lóð og fasteign og krafist uppboðs á eigninni til greiðslu á vinnu og útlögðum kostnaði.

Sérstaklega um númerslausar bifreiðar, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilega hluti

Bent er á eftirfarandi meginreglur um númerslausar bifreiðar, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilega hluti:

  • Númerslausar bifreiðar, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilegir hlutir sem eru  á almannafæri, þ.e. ekki á einkalóð, munu fá álímdan miða, þar sem slíkt telst alltaf til lýta þrátt fyrir ásigkomulag, þar sem veittur er einnar viku frestur til að farlægja hið álímda tæki.
  • Númerslausar bifreiðar, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilegir hlutir sem eru  inni á einkalóð, og eru til lýta eða valda mengunarhættu fyrir umhverfið, þrátt fyrir að vera á bílastæði, munu fá álímdan miða, ef ekki er talin þörf á að beita ákvæðum um lóðahreinsun, þar sem veittur er einnar viku frestur til að farlægja hið álímda tæki. Embættið getur einnig beitt ákvæðum reglugerðar um hreinsun einkalóða til að fjarlægja númerslausar bifreiðar, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilega hluti.
  • Númerslausar bifreiðar, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilegir hlutir og eru EKKI staðsett á skilgreindu bílastæði einkalóðar munu fá álímdan miða, þar sem slíkt telst alltaf til lýta þrátt fyrir ásigkomulag, þar sem veittur er einnar viku frestur til að farlægja hið álímda tæki.
  • Númerslausar bifreiðar, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilegir hlutir sem eru inni á skilgreindu bílastæði einkalóðar og eru EKKI til lýta og valda EKKI mengunarhættu fyrir umhverfið, munu ekki fá álímdan miða frá Heilbrigðiseftirlitinu. (Undantekning er þó þar sem húsfélag, leigufélag eða sambærilegt félag í fjöleignarhúsi biður um aðstoð frá Heilbrigðiseftirlitinu, en viðkomandi greiðir þá kostnaðinn við að fá hið álímda tæki eða lausamun fjarlægt.)
Kærur vegna þessara atriða

Um valdsvið og þvingunarúrræði heilbrigðiseftirlits vísast í gr. 60-61 í lögum nr. 7/1998. Heimilt er að kæra þessa málsmeðferð og aðgerðir Heilbrigðiseftirlitsins til sérstakrar úrskurðarnefndar sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998. Slík kæra eða málsskot frestar þó ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Vinsamlega hafið samband við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja með því að senda tölvupóst á hes(hjá)hes.is eða hringja í síma 420 3288.